Endurhæfing-þekkingarsetur er einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, sem sérhæfir sig í endurhæfingu fyrir einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

Vorið 2004 tók Endurhæfing að sér þjónustu við skjólstæðinga endurhæfingardeildar Landspítalans í Kópavogi. Um var að ræða fjölfatlaða einstaklinga, sem bjuggu annars vegar á Landspítala í Kópavogi og hinsvegar á sambýlum á höfuðborgarsvæðinu.

Samningar um þjónustu og rekstur voru undirritaðir við Heilbrigðisráðuneyti og Landspítala í maí 2004. Samningar voru síðan endurnýjaðir árið 2009. Hjá fyrirtækinu starfa sjúkraþjálfarar, þroskaþjálfi, íþróttafræðingur og sérhæft aðstoðarfólk, auk þess sem annað fagfólk er kallað til eftir þörfum.

Framkvæmdarstjóri og yfirsjúkraþjálfari er Guðný Jónsdóttir og er Atli Ágústsson sjúkraþjálfari og heilbrigðisverkfræðingur faglegur staðgengill hennar.

 

 

Sumargrill 9. júní 2017

 

Starfsfólk Endurhæfingar - Þekkingarseturs gerði sér glaðan dag í góða veðrinu og grillaði hádegismat í sólinni og Berglind bauð upp á afmælistertu í eftirrétt.

 

 

 

Fræðslu- og vinnudagur um CP eftirfylgni                                                         

 

 

Þann 12. maí héldu Endurhæfing-þekkingarsetur og Æfingastöðin sameiginlegan vinnudag um CPEF eða CP eftirfylgni (www.cpup.se) og er það í annað sinn sem slíkur dagur er haldinn hér á landi. Að þessu sinni hafði Æfingastöðin veg og vanda af framkvæmd dagsins.  Aðalfyrirlesari dagsins var Elisabet Rodby-Bousquet sjúkraþjálfari  PhD, frá CPUP í Svíþjóð.

Með CPEF skoðun getur fagfólk fylgst með þróun einkenna hjá hverjum einstaklingi og komið auga á varúðarmerki. Þetta er undirstaða þess að hægt sé að veita viðeigandi meðferð hverju sinni. Kerfisbundin skoðun og eftirfylgni með einstaklingum með CP fer fram  í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Skotlandi og í tilteknum landshlutum Íslands og  Ástralíu.  Áhugasamir um CP eftirfylgni geta snúið sér til Endurhæfingar-þekkingarseturs eða til Æfingastöðvarinnar um frekari upplýsingar.

 

Á meðfylgjandi myndum sést Elisabet Rodby-Bouquet sýna skoðun á ungri stúlku með CP og einnig sjást Guðný Jónsdóttir og Birkir M. Kristinsson sjúkraþjálfarar hjá Endurhæfingu-þekkingarsetri . Guðný flutti fyrirlestur um mat á gæðum líkamsstöðu (quality of posture) og notkun Posture and Postural Ability Scale við slíkt mat og ennfremur við val og mat á gæðum íhlutunar í sitjandi, liggjandi og standandi stöðu. Birkir kynnti sérstakt matstæki um fallhættu „ MiniBESTest“ sem var tekið upp í CP eftirfylgni um síðustu áramót og metur fallhættu hjá fólki með CP en föll og beinbrot og /eða aðrir áverkar í kjölfarið er algengir meðal fólks með CP og áhættuþáttur í heilsu þeirra og lífsgæðum.

 

 

 

 

 

Starfsdagur

Velheppnaður starfsdagur var haldinn hjá Endurhæfingu –þekkingarsetri þ. 8. Apríl sl. Við hófum daginn með morgunverðarfundi hjá Stoð þar sem við fengum fræðandi og skemmtilega kynningu á helstu nýjungum  sem Stoð er með í samningi við Sjúkratryggingar Íslands um hjólastóla og gönguhjálpartæki.

Deginum var síðan varið í að fara yfir faglegar áherslur, verkferla í daglegu starfi og hugmyndafræði að baki Endurhæfingu- þekkingarsetri. Um kvöldið fórum við síðan og nutum matar og drykkjar á frábærum veitingastað - Essensia. Sannarlega skemmtilegur dagur J.


 

 

 

Þeir eru sannarlega margir snillingarnir sem koma í sjúkraþjálfun til okkar hérna hjá Endurhæfingu -þekkingarsetri. Hérna sjáum við einn þeirra hann Sigurjón –Sigga – taka á því í sundlauginni.

 

 

 

 

 

Vísindaferð FS 3. nóvember 2016


Vísindaferð FS haustið 2016 var haldin í Endurhæfingu-Þekkingarsetri fimmtudaginn 3. nóvember síðastliðinn.
Sjúkraþjálfarar í Endurhæfingu – Þekkingarsetri sögðu frá sögu staðarins ásamt því merkilega starfi sem þar fer fram með mikið fötluðum einstaklingum.


 

 

Sjá: https://www.facebook.com/events/138414133293780/

 

 


Óvissuferð Endurhæfingar-Þekkingarseturs

 

Starfsfólk Endurhæfingar –þekkingarseturs, gerði sér glaðan dag ásamt mökum og fór í óvissuferð þ. 12. nóv. sl. Meðal annars var farið í Reykjavík Escape þar sem búið var að semja um það við húsráðendur að læsa starfsfólk  inni og láta það leysa þraut til að komast út aftur.

 

Það er skemmst frá því að segja að starfsmenn Endurhæfingar-þekkingarseturs sönnuðu enn á ný hvers þeir eru megnugir og allir  hóparnir þrír leystu verkefnið og komust út á tilskildum tíma, þó 3ja sekúndna ágreiningur hafi orðið milli síðasta hópsins og stjórnenda leiksins. 

Allt um það þá voru allir komnir út þegar átti að fara að leysa liðið úr haldi. 

 

Í liðinu sem varð í fysta sæti voru  Magga, Knútur, Una, Edda og Birkir

 

Í öðru sæti urðu Krissi, Bjössi, Ísleifur, Berglind, Viktor og Erla

 

Í frábæru liði sem lenti í þriðja sæti voru Atli, Siggi, Guðný, Svenni og Kristrún

 

 

Vísindaferð FS

 

Vísindaferð FS haustið 2016 verður haldin í Endurhæfingu-Þekkingarsetri fimmtudaginn 3. nóv kl 17 – 19.
Sjúkraþjálfarar í Endurhæfingu – Þekkingarsetri segja frá sögu staðarins ásamt því merkilega starfi sem þar fer fram með mikið fötluðum einstaklingum.

 

Dagskrá:
Guðný Jónsdóttir sjúkraþjálfari tekur á móti gestum og segir frá starfi staðarins
Skoðunarferð um svæðið
Veitinga notið
Mynduð ný kynni og gömul endurnýjuð...

Sjá: https://www.facebook.com/events/138414133293780/


Notið tækifærið til að kynna ykkur staðinn og njótum samverunnar með kollegum.

 

Tilkynnið mætingu á viðburðinn á facebook síðu FS eða skráið ykkur á physio@physio.is

 

 

 

Íslenski hópurinn á CPUP ráðstefnu í Malmö í október 2016

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Valrós Sigurbjörnsdóttir iðjuþjálfi, Þorbjörg Guðlaugsdóttir sjúkraþjálfari,  Ásta Halldórsdóttir stoðtækjafræðingur, Sveinn Finnbogason stoðtækjafræðingur, Guðný Jónsdóttir sjúkraþjálfari, Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfari,  Atli Ágústsson sjúkraþjálfari, Gerður Gústavsdóttir iðjuþjálfi og Sigurður Már Hlíðdal sjúkraþjálfari í Lundi en Sigurður er einmitt fyrrverandi starfsmaður hjá Endurhæfingu-þekkingarsetri.

 

CPUP dagar í MALMÖ 2016

 

Tveir sjúkraþjálfarar frá Endurhæfingu –þekkingarsetri, Guðný og Atli, voru meðal þátttakenda á hinum árlegu CPUP dögum sem haldnir voru í Malmö dagana 24. og 25. október 2016. CPUP, eða CPEF eins og það heitir á íslensku, er eftirfylgni með einstaklingum, börnum og fullorðnum með CP. Þátttakendur komu frá Svíþjóð, Noregi, Íslandi, Danmörku og Finnlandi auk Skotlands, en þar hefur  CP eftirfylgni náð blússandi starti  (CPIPS, Cerebral Palsy Integrated Pathway Scotland). Sem dæmi um eftirtektarverðan árangur af CP eftirfylgninni má nefna að í Svíþjóð hefur tekist að fækka einstaklingum með mjaðmaliðhlaup úr 10% niður í 0.4 %.

Boðið var upp á marga áhugaverða fyrirlestra  m.a. um greiningu göngu hjá börnum með CP, eigindlega rannsókn um það hver sé reynsla ungra fullorðinna af lífi með CP,  og fyrirlestur talmeinafræðings um EDACS sem er matstæki þar sem horft er til færni einstaklingsins til að matast  og drekka.

CPUP eða „Kerfisbundin skoðun og eftirfylgni með börnum og ungmennum með CP“ hefur farið fram í tvo áratugi í Svíþjóð með góðum árangri og hefur einnig verið tekin upp sem gæðagangnagrunnur í Noregi, Danmörku, í nokkrum ríkjum Ástralíu og nú síðast í Skotlandi. Fylgst er með fullorðnum með CP á þennan hátt í Svíþjóð og verið að byrja í Noregi. Á Íslandi var CPEF tekið upp hjá Æfingastöðinni árið 2012 og hjá Endurhæfingu –þekkingarsetri á árinu 2014. Á árinu 2015 voru þátttakendur alls 120 þar af 71 barn og 49 fullorðnir. Flestir þátttakendur eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, en báðar stofnanirnar hafa sinnt þátttakendum á landsbyggðinni.

Með CPEF skoðun getur fagfólk fylgst með þróun einkenna hjá hverjum einstaklingi og komið auga á varúðarmerki. Þetta er undirstaða þess að hægt sé að veita viðeigandi meðferð hverju sinni.

Tekist hefur að sporna gegn  alvarlegum afleiddum skerðingum af frumskerðingunni eins og liðhlaup í mjaðmaliðum og alvarlegum kreppumyndunum í útlimaliðum. Fyrir utan þau áhrif sem slíkt hefur á lífsgæði einstaklingsins,  leiða þessar afleiddu skerðingar oft til sértækra og umfangsmikilla úrræða og jafnvel skurðaðgerða sem eru bæði tímafrekar og kostnaðarsamar.

Hér er hægt að finna ársskýrslu CPEF á Íslandi fyrir árið 2015 eða hér til vinsti á síðunni undir fræðastarf, greinar.